Gale Anne Hurd heiðursgestur

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er oft kölluð “the first lad of Sci fi” en það er engin önnur en Hollywood framleiðandinn Gale Anne Hurd og eigandi Valhalla Entertainment. Gale var meðhöfundur og framleiðandi hinnar gosagnakenndu Terminator, auk þess að framleiða Aliens, Hulk, Armageddon og The Walking dead svo dæmi séu nefnd.

Gale mun vera með masterklassa á hátíðinni en leikkonan Steinunn Ólína mun taka viðtal við Gale um feril hennar. Steinunn Ólína er einnig í dómnefnd hátíðarinnar ásamt Ottó Geir Borg handritshöfundi og Nanna Frank Rasmussen, gagnrýnanda hjá Jyllands Posten í Danmörku.

Hátíðin skipuleggur að auki, í samstarfi við Wift og bandaríska sendiráðið, sérstaka sýningu á heimildarmynd sem Gale framleiddi frá árinu 2017, sem heitir MANKILLER og fjallar um baráttu fyrsta Cherokee kvenhöfðingjans í bandaríkjum, Wilma Mankiller, fyrir auknum réttindum frumbyggja.

Myndin verður sýnd samtímis í Frystiklefanum á Rifi og í Bíó Paradís, sunnudaginn 28. október klukkan 20.00. Gale mun svara spurningum úr sal eftir myndina í Bíó Paradís.

Tryggðu þér sæti og skráðu þig hér á sýningu MANKILLER í Bíó Paradís.

Hér er sýnishorn úr heimildarmyndinni MANKILLER

Skráning er hafin í fiskiréttakeppnina

Kannt þú að elda frábæran fiskirétt eða fiskisúpu?

Fiskiréttakeppnin er einn vinsælasti og best sótti viðburður hátíðarinnar.

Fiskiréttakeppnin fer þannig fram að bæði einstaklingar og fyrirtæki/veitingastaðir geta tekið þátt með því að skrá sig á facebook, eða hér fyrir neðan.

Allir keppendur geta óskað eftir fiskmeti og elda svo réttina heima hjá sér og koma með í Frystiklefanann en keppnin fer fram laugardagskvöldið, 27. október næstkomandi .

Keppendur gefa gestum hátíðarinnar smakk af sínum rétti og gestirnir kjósa svo um besta fiskiréttinn.

Allir þátttakendur í keppninni fá tvö armbönd inn á hátíðina (að værðmæti 5000 krónur hvort) og flösku af gæðagininu Himbrima. Vinningshafar fá verðlaunagrip hannaðan af Lavaland, auk gjafabréfs á Fisk-Grill-eða Skelfiskmarkað Hrefnu Rósu Sætran og ferð í Buublees á Íslandi að verðmæti 119.000 krónur.

Forval stuttmynda

Northern Wave verður haldin hátíðilega þann 26.-28. október næstkomandi í Frystiklefanum á Rifi. Undirbúningur hátíðarinnar hefur staðið yfir frá byrjun árs og má búast við veglegri hátíð í ár og því rétt að tryggja sér gistingu í Snæfellsbæ sem fyrst. Alþjóðleg forvalsnefnd hefur setið sveitt að störfum en hátíðinni bárust tæpar 50 íslenskar stuttmyndir og rúmlega 250 erlendar stuttmyndir. Forvalið hefur nú verið opinberað hér á heimasíðu hátíðarinnar en í ár verða sýndar 31 alþjóðlegar stuttmyndir, 23 íslenskar stuttmyndir og 15 íslensk tónlistarmyndbönd.

Forval íslenskra tónlistarmyndbanda er unnið í samstarfi við Albumm.is og verður birt innan skamms.

Við þökkum öllum sem sendu inn mynd fyrir hátíðina í ár og óskum öllum góðs gengis og hlökkum til að sjá sem flesta á Rifi í október.

Lokað fyrir umsóknir

Hátíðin hefur nú lokað fyrir umsóknir fyrir elleftu Northern Wave hátíðina sem fer fram helgina 26.-28. október. Við þökkum öllum sem sendu inn stuttmynd, tónlistarmyndband eða vidjóverk.

Hátíðinni bárust rúmlega 200 erlendar myndir og um 80 íslenskar myndir, tónlistarmyndbönd og vidjóverk.

Alþjóðleg valnefnd hátíðarinnar situr nú sveitt yfir forvalinu og er nú að ljúka forvali erlendra mynda. Öllum leikstjórum verður tilkynnt um forvalið fyrir 1.september næstkomandi.

Miðað við úrval innsendra mynda og heiðursgestinn sem verður tilkynntur, von bráðar, þá stefnir í frábæra hátíð í ár!